Skólabyrjun 2025 - 2026

Nú styttist í skólabyrjun og vonandi hefur sumarið farið ljúfum höndum um ykkur. Með þessum pósti viljum við fara yfir nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga við skólabyrjun barna ykkar.
Mánudaginn 25. ágúst mæta nemendur í skólann samkvæmt stundatöflu inn á sín heimasvæði þar sem umsjónarkennarar taka á móti þeim. Nemendur í 1.-7. bekk mæta kl. 8:30 og nemendur í 8.-10. bekk mæta kl. 9:10.
Vetrarstarfið í frístundaheimilinu Klapparholti hefst einnig 25. ágúst fyrir þá sem þar eru skráðir og byrjar að skóla loknum kl. 13:30. Leitið til forstöðumanna Klapparholts með fyrirspurnir og skráningu í vetrarstarfið klapparholt@reykjavik.is
Allt frá upphafi skólans, sem fagnaði 20 ára afmæli sínu sl. vor, hefur ríkt sú hefð að í vikunni fyrir skólabyrjun eru skólaboðunarheimsóknir. Þá heimsækja kennarar og annað starfsfólk skólans nemendur og foreldra á heimavelli nemenda til að styrkja tengslin milli heimilis og skóla og ræða það sem helst brennur á, bæði hjá nemendum og foreldrum, varðandi skólabyrjunina ásamt því að fara yfir helstu áherslur varðandi komandi skólaár.
Skólaboðunarheimsóknir hafa undanfarin ár miðast við heimsóknir til nemenda í 1., 3., 5. og 8. bekk þar sem þessir árgangar hefja nám í nýjum námshópum og eru að færast á milli skólastiga og fá nýja kennara.
Skólakynning fyrir 1. bekk er 22. ágúst kl. 8:30
Skólasetning samkvæmt skóladagatali er föstudaginn 22. ágúst kl. 16:15.
Hefð er fyrir því að skólasetning sé haldin seinnipart dagsins með starfsfólki, nemendum og fjölskyldum þeirra þar sem við komum öll saman til að hittast og fagna nýju skólaári. Venja er að skólasetning fari fram í Björnslundi
Hlökkum til að hitta ykkur á skólasetningardegi,
starfsfólk Norðlingaskóla